top of page

​Útstæð eyru

Nú er búið að laga eyrun og vonandi er með því meðferðinni lokið og hægt að horfa fram á veginn. Hér koma nokkur ráð hvernig best er að haga lífinu á næstunni

Húðkrabbamein

Leiðbeiningar eftir aðgerð - útstæð eyru

  1. Talsvert af sárunum eru saumuð með þráðum sem eyðast af sjálfu sér, en aftan á eyrunum eru skurðirnir saumaðir með þræði sem á að fjarlægja eftir 7-10 daga.

  2. Þú hefur hið minnsta þrjú lög af umbúðum. Næst sjálfu eyranu eru vasilíngrisjur, formaðar eftir nýju eyrunum, og stundum saumaðar við. Ofan á þeim er heilmikið af grisjum og þar fyrir ofan teygjubindi til að halda öllum herlegheitunum á sínum stað.

  3. Einn af verstu fylgikvillunum sem gerst geta við þessa aðgerð ef það blæðir milli húðarinnar og brjósksins sem búið er að forma upp á nýtt. Þess vegna kemurðu til baka eftir 3-4 daga þar sem ysta lagið á umbúðunum er fjarlægt, og léttara hárband sett í staðinn.

  4. Mundu að teygjubindi eða hárband þarf að vera til staðar dag og nótt þar til annað er sagt.

  5. Þú skalt forðast alla líkamlega áreynslu fyrstu 3 vikurnar. Ekki má stunda boltaíþróttir eða aðra hreyfingu þar sem geta komið högg á eyrun í 6 vikur eftir aðgerð.

  6. Alltaf þegar skorið hefur verið í húð myndast ör, hvernig þau verða liggur í genunum að nokkru leyti, en svo skiptir hæfni skurðlæknisins einnig miklu máli.

  7. Vel saumuð sár gróa yfirleitt á 7-10 dögum og þá er hægt að fjarlægja þá sauma sem sitja utan á.

  8. Þú skalt teipa skurðina með micropore teipi í nokkra mánuði eftir aðgerð. Þá verða örin eins fín og mögulegt er.

  9. Teipið þolir vatn, svo eftir þetta skaltu fara í sturtu og þvo þér á venjulegan hátt með sjampói og fljótandi sápu. Íslenskt vatn og sápa minnkar magn baktería á líkamanum, sem verndar gegn sýkingu. Misskilningur er að það megi ekki sturta sig meðan saumarnir eru í. Það er bara sóðaskapur.

  10. Eftir sturtuna er hægt að þurrka teipið með hárþurrku.

  11. Teipið er tekið af við endurkomuna til læknis eða hjúkrunarfræðings.

  12. Leyfðu microporeteipinu að sitja á sárinu eins lengi og hann tollir, helst heila viku. Ekki skipta oft, því þá ferðu að slíta með þér ysta húðlagið sem fáum þykir gott. Teipaðu svo á þennan hátt í 6 - 9 mánuði.

  13. Að teipa lengi styður sárkantana og heldur þeim saman. Þá heldur húðin að það sé nóg að gera örið lítið og nett, en ekki stórt og sterkt.

  14. Ef maður þrátt fyrir þetta fær ör sem maður er ekki ánægður með er gott að heimsækja lýtalækninn aftur og ræða hvort hægt sé að gera eitthvað til að stoppa örmyndunarferlið.

bottom of page