top of page

Aðgerð vegna húðkrabbameins

Húðmein

Húðkrabbamein geta verið alls kyns...

Að fjarlægja húðmein

Eitt af því algengasta sem lýtalæknar gera er að fjarlægja ýmis konar húðmein sem vísað er til þeirra frá húðlæknum eða heimilislæknum. Húðkrabbamein er algengasta krabbameinið sem hrjáir fólk, oft of yfirleitt eldra fólk. Eldra fólk er gjarnan með aðra sjúkdóma, sem geta komið í veg fyrir góða útkomu og útlit eftir aðgerð. Þar má kannski helst til nefna ýmis konar blóðþynningarlyf vegna hjartasjúkdóms.

Fyrr var það svo að eldra fólki stóð rennislétt á sama hvernig vinnulagið var við aðgerðina og hvernig var saumað saman. Þetta hefur hins vegar breyst og nútímafólki þykir það skipta verulegu máli hvernig útlit andlitsins verður í kjölfar brottnáms á húðkrabbameini.

Vegna þessa er mjög mikilvægt að sá sem framkvæmir aðgerðina sé vel menntaður og þjálfaður til að framkvæma þessar aðgerðir, og sjái til þess að fagurfræðilega útkoman verði eins ákjósanleg og forsendurnar gefa tilefni til.

Það sem mestu máli skiptir er sú aðferð sem notuð er til að byggja upp vefninn í kring, svo að eins lítið og hægt er sjáist að átt hafi verið við húðina

Basalioma Húðkrabbamein

Krabbamein í húð er nú til dags algengasta krabbameinið hjá bæði konum og körlum

​

Að mörgu leyti er það bara ágætt. Og ástæðan er sú að flestar tegundir húðkrabbameina sá sér ekki neins staðar annars staðar í líkamann, mynda ekki meinvörp. Eiginlega eru það bara sortuæxlin sem gera það, auk annarra mjög sjaldgæfra húðkrabbameina, s.s. Mercel cell carcinoma.

Þetta þýðir hins vegar ekki það að þessi krabbamein séu algerlega hættulaus. Þau halda áfram að vaxa og vaxa og bera enga virðingu fyrir vefjunum í kring. Þannig getur t.d. grunnfrumukrabbamein vaxið inn í augntóftina svo fjarlægja þurfi augað, eða i versta falli inn í heilann með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Það er einungis í þessum tilfellum sem sjúklingar geta dáið úr þessum tegundum, en jafnframt eru það ákaflega sjaldgæf tilfelli sem ganga svona langt. Í flestum tilfellum má skera þau í burtu og þá er sjúklingurinn læknaður.

Það sem hins vegar er ekki svo óalgengt að þessi æxli vaxi með einhvers konar „rótum“ út fyrir svæðið þaðan sem þau eru fjarlægð. Þessar rætur sjást ekki með beru auga þegar æxlið er tekið, en þær sjást samt í smásjánni þegar meinafræðilæknirinn skoðar sýnin. Þegar þetta gerist þarf sjúklingurinn að koma aftur og láta taka meira í burtu. Það er sem sagt þannig að hið eina sem skiptir máli hvað varðar að lækna þessa tegund æxla er að ná algerlega öllu burt og skilja ekkert eftir. Ef það tekst er sjúklingurinn læknaður.

Hins vegar gerist það stundum að æxlin fara að vaxa aftur, sama þótt meinafræðilæknirinnn hafi gefið svarið að allt sé á brott. Þetta á einkum við um grunnfrumukrabbamein af verstu sortinni, sem stundum eru kölluð „morphea.“ Þetta eru lúmsk æxli sem geta sent frá sér frumur út í kring, sem ekki sjást í smásjánni, en byrja svo að vaxa aftur þegar jafnvel hafa liðið nokkur ár. Þegar þessi æxli eru fjarlægð er mikilvægt að fjarlægja stór stykki af vef, til að ná þeim. Þess vegna er sjaldgæft að það takist að eingöngu sauma saman sárið eftir brottnámið, heldur þarf yfirleitt einhvers konar uppbygging að koma til ef svæðið á að gróa með þokkalegri útkomu. Það er þess vegna sem þessir sjúklingar eru í höndum lýtalækna. Lýtalæknar eru sérfræðingar í að byggja upp vef aftur með einhverjum hætti sem hefur verið fjarlægður.

Það er sem sagt svo að tegundin og ágengnin (aggressivity) æxlisins skiptir höfuðmáli í því hvaða aðgerð er notuð til að lækna það. Stundum getur aðgerðin verið lítil, þannig að hægt sé að sauma saman sárið á venjubundin hátt, en stundum þarf að fjarlægja stóra bita, sem jafnvel innihalda bein og vöðva. Þeir sjúklingar sem koma á tilvísun frá heimilislæknum eða húðlæknum fara oftast í aðgerð þar sem hægt er að sauma saman beint. Ef æxlin eru aðeins stærri er hægt að flytja húð, t.d. frá hálsi eða aftan við eyrað og græða þessa bita á. Ef um enn stærri sár er að ræða getur þurft að gera s.k. flipaplastík, þar sem vefur er fluttur frá öðrum stað inn í sárið og græddur þar.

Niðurstaðan er því sú að flestir sjúklingar sem fá illkynja æxli í húð sleppa með skrekkinn, þ.e. hægt er að lækna þá með einfaldri skurðaðgerð og saum. Þeir fáu sem hafa mjög stór æxli þurfa hjálp með enduruppbyggingu,  og einstaka þurfa verulega stórar aðgerðir til  að byggja upp andlit eða aðra strúktúra.

​

Nánar um enduruppbyggingu vefja sem hafa verið fjarlægðir

​

Að endurbyggja útlit þess, þar sem hluti af húðinni hefur verið fjarlægður getur verið nokkuð erfitt verk. Það mikilvægasta að hafa í huga er að endurskapa þarf vefinn eins líkann og þann vef sem hefur verið fjarlægður.

Besta aðferðin við þetta er að gera svokallaðan flipa. Það er vefur sem er nálægt æxlinu sem búið er að fjarlægja og sem hægt er að losa og flytja inn í svæðið þar sárið er eftir aðgerðina og þar sem vantar vef. Vegna þess að flipavefurinn er yfirleitt við hliðina á sárinu er þetta yfirleitt vefur sem lítur næstum alveg eins út og sá sem hefur verið fjarlægður og gefur því útlit og áferð eins og áður var á staðnum. Gallinn við þessa aðferð er að óhjákvæmilega verður örmyndun þaðan sem flipinn er tekinn, verið er að losa vef sem í raun ekki þarf að gera, það er í raun einfaldara að hefla örþunnt lag af húð frá lærinu (split skin graft) og græða á staðinn, þó svo útlitið verði ekkert spes.

Annað vandamál er hvað á að gera ef krabbameinið kemur til baka. Þá getur það vaxið undir flipanum, svo að þegar það loksins sýnir sig þarf að fjarlægja mjög mikið af vef, vegna þess að ekki sást að krabbemeinið hafi byrjað aftur að vaxa.

Næsta varnarlína í viðgerð á sárinu eftir æxlið er að græða fullþykktarhúð á staðinn. Að gera þetta í andlitinu eða hársverðinum er tiltölulega einfalt verk. Þá er skorinn hluti af húð þar sem sjúklingurinn má missa, hæfilega stór bútur, sem svo er saumaður niður í sárið og látinn gróa fastur. Mikilvægt er að búturinn sé hæfilega stór, ekki of lítill. En ekki nóg með það, það sem er enn mikilvægara er að um sé að ræða húð sem er eins lík húðinni sem var fjarlægð hvað varðar bæði lit og áferð. Ef um andlit er að ræða er þessi staður oft framan við eyrað hjá konum, en bak við eyrað hjá karlmönnum sem hafa skegg. â€‹Í versta falli ef vantar mjög mikinn vef eftir stórt æxli er sem sagt hægt að hefla örþunna húð af öðru lærinu og fá þá húð að gróa. Það er yfirleitt létt að fá slíka húð að gróa, en gæðin á henni verða aldrei eins og gæðin á fullþykktarágræði. Að ekki sé talað um flipa. Hins vegar er ekki er hægt að fá fullþykktarágræði að gróa fast nema í andliti og hársverði fullorðinna og þar að auki í lófum barna. Hlutþykktarágræði má hins vegar fá að gróa hvar sem er, enda er þetta aðferðin sem er notuð t.d. við alvarlega og stóra bruna.

​

Sú aðferð sem er hins vegar algengust ef ekki er hægt að sauma sárið saman á venjubundinn hátt er að græða þangað fullþykktarágræði. Þannig er fremur auðvelt að fylgjast með hvort krabbameinið haldi áfram að vaxa, en á sama tíma er þessi uppbygging mjög góð, þó svo hún nái sjaldast gæðum flipa.

Til að hægt sé að meðhöndla á réttan hátt sem veldur sjúklingnum eins litlum meinum og hægt er, er mikilvægt að vísa þeim snemma til reynds lýtalæknis. Muna þarf að þessar aðgerðir eru gerðar skv. gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, svo að sjúklingarnir þurfa ekki að standa straum af meiri kostnaði heldur en ef aðgerðin væri framkvæmd á sjúkrahúsi.

bottom of page