top of page

Drep í skurðsári

Stór drep í skurðsári eru afar sjaldgæf en lítil drep í t.d. sárkanti ekki svo óalgeng. Þau minni gróa yfirleitt án sérstakrar meðferðar

Lýtaaðgerð fylgikvillar

Í mjög sjaldgæfum tilfellum getur komið drep, stórt eða lítið, í skurðsárið. Þetta er algengast hjá fólki sem reykir, hjá eldri einstaklingum eða þeim sem glíma við aðra almenna sjúkdóma. Orsökin fyrir drepi er sú að of lítið blóðflæði er til staðar í sárköntunum miðað við það sem vefurinn þarf, svo að húðin og stundum vefir undir henni lifa það ekki af.

Einkenni drepsins geta komið fram allt frá klukkustundunum eftir aðgerðina, til kannski tveggja vikna eftir. Fyrstu einkennin um drep eru að húðin sem er saumuð verður alveg hvít og háræðafylling er ekki til staðar. Kanturinn getur líka verið fagurblár. Sjúklingurinn sjálfur finnur venjulega ekkert til í þessu, enda eru litlu skyntaugarnar sem annast skynjun á þessu svæði óvirkar eftir aðgerðina.

Þegar 3 - 4 dagar hafa liðið er kanturinn venjulega orðinn svartur, hann heldur ekki saumum lengur og sárið opnar sig.

Sýkingar eru algengar sem afleiðing drepsins. Yfirleitt getur verið erfitt að setja greiningu, erfitt að vita hvort kom á undan, sýkingin eða drepið, en alltaf þarf að hreinsa slík sár. Ef þau eru lítil er þetta gert á göngudeild, en alltaf skyldi hafa lágan þröskuld að taka sjúklinginn á skurðstofu, þar sem hægt er að gera það sem þarf.

Það sem skurðlæknir þarf að gera er að fjarlægja allan dauðan vef, og skilja aðeins eftir sig frískan vef, sem getur gróið. Stundum í byrjun erfitt að greina hversu mikill vefur klárar sig, og hver ekki. Því er stundum beðið í 2 vikur, þar til líkaminn er búinn að ákveða sig hvað á að lifa og hvað á að deyja, áður en nokkur aðgerð er gerð. Hugsunin er sú að ekki taka í óþarfa burt vef sem á eftir að lifa, heldur til að hjálpa til við greina í sundur það sem taka þarf burt, frá því hvað er hægt að skilja eftir.

Þegar aðgerð sem felur í sér brottnám á húð og fitu er framkvæmd (til dæmis svuntuaðgerð) þarf að huga sérstaklega að þessu með blóðflæðið og hversu strekkt húðin er. Hæfilega mikið af vef þarf að taka. Ef of lítið er tekið verður árangurinn undir væntingum, en gróandaferlið nokkuð öruggt. Ef of mikið er tekið, má gera ráð fyrir drepi, sama hversu frísk/ur sjúklingurinn er, en hins vegar er það svo að því meira sem tekið er, gefur oft betri árangur. Best er að dansa á línunni, þ.e. ganga eins langt og hægt er í að fjarlægja vefinn, en á sama tíma taka ekki meira en svo að skurðsárið geti gróið. Ekki er svo óalgengt að einstaklingurinn fái í einhvern hluta skurðar smávægilegan kafla þar sem einhver kantur tekur sér lengri tíma að gróa. Hann grær yfirleitt án nokkurrar meðferðar en tryggir að einstaklingurinn fær eins góða útkomu og hægt er.

Eitt einfalt dæmi er þetta:

Einn allra versti fylgikvillinn sem getur hent þegar gerðar eru brjóstaminnkanir, eða brjóstalyftingar, er drep í geirvörtu og vörtubaug. Þetta er afar sjaldæft. 

Þegar drep kemur í geirvörtu má sjá það yfirleitt samdægurs eftir aðgerðina. Þegar litið á geirvörtuna er hún hvít á litinn og háræðafylling er ekki til staðar.

Eftir þrjá daga, er hún yfirleitt blá á litinn, saumarnir halda ennþá, en ekki vel. Þremur dögum eftir þetta eru sárkantarnir orðnir svartir og halda engum saumum. 

Eftir ca 10 daga hafa allir saumar sleppt og opið er inn. Þegar þetta hefur gerst er dauði vefurinn fjarlægður, og svo er geirvartan endurgerð og vörtubaugurinn húðflúraður, á sama hátt og gert er við allar konur sem fá brjóstauppbyggingu eftir brjóstakrabbamein.

Alltaf má reikna með að tilfinningin minnki í vörtu og vörtubaug við brjóstaminnkun eða brjóstalyftingu. Það er hins vegar sjaldgæft að hún verði algerlega tilfinningalaus. Þetta er eðlilegt og hefur ekkert með drep að gera.

bottom of page