top of page

Sértækir fylgikvillar eftir brjóstastækkun

Brjóstastækkun fylgikvillar
Bringa.png

Sjúklingar sem farið hafa í gegnum brjóstastækkun geta að sjálfsögðu fengið alla almenna fylgikvilla eftir aðgerðina, blæðingu, sýkingu, drep og blóðtappa. Þær geta samt fengið vissa sértæka fylgikvilla sem sjúklingar sem fara í gegnum aðrar aðgerðir fá ekki.

brjóstastækkun fylgikvillar

Algengt er á síðustu árum að leggja inn dropalaga brjóstapúða, í þeim tilgangi helstum að fá eins náttúrulegt útlit og hægt er eftir aðgerð. Aðalkostur þessarar aðferðar er að minnka líkurnar eins og hægt er að ekki sjáist kantur í efri pólnum, í efri enda púðans. Það sést því ekki þegar konan ber flegna boli eða kjóla að hún hafi brjóstapúða. Í staðinn er púðinn látinn þrýsta út í húðina í neðri pólnum sem gefur dropalaga brjóst, sem margar konur vilja fá.

Ef lagðir eru inn hringlaga púðar geta þeir snúið sér á allan hátt fram og til baka án þess að það sjáist. Ef hins vegar eru lagðir inn dropalaga púðar geta þeir líka snúið sér. Þá verður form brjóstsins mjög óvenjulegt þar sem mesta fyllingin er í efri pólnum, nokkuð sem erfiðlega gengur að klæða af sér. Tíðnin á því að þetta hendir er í kringum 3%.

Því miður er ekki hægt að leiðrétta þetta, nema með því að svæfa, fara inn, snúa púðanum til baka og víkka vasann fyrir púðann aftur í hæfilega strærð. Eftir þá aðgerð er nauðsynlegt að bera svokallað "brjóstaband" í 3-4 vikur, eða þar til nýi vasinn er orðinn stabíll. Þetta er fremur lítil aðgerð sem tekur stuttan tíma og skilur engin stór sár eftir sig, hvorki að utan eða innan skurðsvæðis.

 

Að leggja púðana undir stóra brjóstvöðvann hefur ýmsa kosti. Þessi lega getur þó valdið fylgikvillum, sem sjaldnar sjást er púðinn er lagður utaná. Vöðvar eru blóðrík líffæri og hafa vissa tilhneigingu til að blæða eftir aðgerð. Það er því aðeins algengara að sjúklingar blæði eftir aðgerð undir vöðvann miðað við ef púðinn er lagður ofan á. Þessi aukning er hins vegar lítil, en þó mælanleg.

Það sem sumar konur tala um, sérstaklega þær sem æfa mikið, er að styrkurinn í brjóstvöðvunum minnkar tímabundið. Gera má ráð fyrir að þeir séu strax eftir aðgerðina ansi slappir. Aðgerðin hindrar hins vegar ekki konuna að þjálfa upp vöðvana aftur, þegar allt er gróið. Útkoman verður því yfirleitt sú, að ári eftir aðgerð er styrkurinn orðinn hinn sami og fyrir.

Sumar konur tala um að tilfinningin í geirvörtunum sé minni eftir aðgerð en fyrir. Þetta er eilítið algengara ef púðinn er lagður undir vöðvann. Í flestum tilfellum gengur þetta til baka að mestu eða öllu leyti. Það er þó ekki algilt, og fræðilega séð getur þetta haft áhrif á brjóstagjöf síðar meir.

 

Lýtaskurðlæknar fá oft spurningar um hvort hægt- eða ráðlegt sé að gefa brjóst ef þær hafa brjóstapúða í brjóstunum. Brjóstamjólk kvenna sem hafa brjóstapúða hefur verið rannsökuð í þaula. Með nákvæmum mælingum mælist magn sílikons í brjóstamólk örlítið meira hjá konum sem hafa brjóstapúða í brjóstunum. Þetta aukna magn er hins vegar mun minna en finnst  í venjulegri kúamjólk, sem öll þurrmjólk er framleidd úr. Dregin hefur því verið sú ályktun að einmitt þessi þáttur geti ekki haft áhrif á barn á brjósti. Minna skal á að um það bil 20% nýbura eru aldrei á brjósti heldur fá duftmjólk, án skaða.

Að lokum má nefna að ísetning brjóstapúða undir brjóstvöðva hefur í för með sér nokkuð meiri sársauka en ef púðinn er lagður ofan vöðva. Verkirnir geta verið talsvert skarpir fyrstu þrjá dagana, en skána svo frekar hratt. Ekki er óalgengt að sjúklingar þurfi morfínskyld lyf þessa fáeinu daga sem verkirnir eru verstir. Ef svo er sendum við þér lyfseðil í lyfjagáttina, ásamt öðrum verkjalyfjum.

Ekki skyldi gleyma því að ýmis einkenni geta birst þegar lagður er nokkuð stór aðskotahlutur inn í líkamann. Lengi hefur verið talið að brjóstapúðar hefðu engin afgerandi áhrif á almenna heilsu konunnar, en annað er mögulega að koma á daginn. Lengi hafa verið þekktir sértækir fylgikvillar, fyrir utan almenna fylgikvilla, sem geta komið fram hjá konum sem fá brjóstapúða. Þetta er til dæmis himnuhersli (capsular contraction) eða langvinn vökvasöfnun kringum púðann. Það sem hins vegar virðist vera að sýna sig núna er að vissar konur sem fá setta í sig brjóstapúða, eða hafa haft slíka, geta fengið margs konar einkenni, sem erfitt er að festa hönd á og hefur verið kallað BII (Breast Implant Illness).

Þetta er sjúkdómsástand getur verið erfitt að eiga við, einkennin geta verið frá fjölmörgum líffærakerfum og þau geta birst mjög misjafnlega milli sjúklinga. Þetta flækir nokkuð vísindarannsóknir um BII, sem þó eru að færast mjög í aukana.

 

Það er því ljóst að margar og stórar vísindarannsóknir þurfa að fara fram, í fyrsta lagi til að staðfesta að um einungis einn sjúkdóm sé að ræða, ekki fleiri, það þarf að skilgreina einkennin og svo vonandi finna meðferð sem getur hjálpað sjúklingnum.

Stundum virðist sem nútíma læknisfræði sé komin langt á veg, en mannslíkaminn á eflaust aldrei eftir að hætta að koma okkur á óvart, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.

bottom of page