top of page

Að fjarlægja brjóstapúða

Nýlega hafa verið sýndir sjónvarpsþættir þar sem fjallað hefur verið um mögulega skaðsemi brjóstapúða hjá konum. Margt af því sem þar hefur komið fram er rétt, en hins vegar er sjálfsagt að skoða málið út frá fleiri hliðum til að fá heildarmyndina

En bloc

Þetta hefur hins vegar valdið því að eftirspurn eftir brottnámi brjóstapúða hefur aukist með veldisvexti. Fram á síðustu ár hefur aðalástæðan fyrir ósk um brottnám verið sú að púðarnir hafa rofnað, eða að konan sjái ekki ástæðu til að hafa þá lengur, að þeir hafi gert sitt gagn. Brjóstapúðarnir eru þá fjarlægðir, með eða án brjóstalyftingar. Hins vegar er hægt að velja á milli nokkurra möguleika þegar skal taka þá út.

​

Líkaminn myndar alltaf bandvefshimnu utan um alla aðskotahluti sem inn í hann eru settir. Þetta gildir jafnt um hnjáliði, lyfjabrunna eða skrúfur eftir beinbrot.

Vitað er að allir brjóstapúðar „blæða“ Þetta þýðir að eftir því sem árin líða leka örsmáar sílikonagnir gegnum veggi púðans og setjast að í himnunni kringum hann.

Í vissum tilfellum, hefur verið hægt að finna sílikon í öðrum hlutum líkamans, lungum og sést hefur tilfelli erlendis þar sem fundust agnir í heila sjúklings sem gætu hafa verið sílikon. Algengast er þó að finna það í eitlum í holhönd. Oft er það fyrsta merkið um að púðar hafi rofnað að það verði eitlastækkun í annari holhöndinni.

Ekki eru til neinar rannsóknaraðferðir til að greina sílikonagnir, nema um nokkuð stórt samsafn þeirra sé að ræða. Það má því færa rök fyrir því við vitum ekki hvort við náum burt algerlega öllum örsmáu sílikonögnunum úr líkamanum, þrátt fyrir að púðarnir séu fjarlægðir. Víðtækar rannsóknir þarf að gera til að kanna hvort og þá hvaða áhrif þetta getur haft á heilsuna til lengri tíma.

Mismunandi er eftir framleiðslufyrirtæki brjóstapúðanna hversu algengt er að þeir rofni. Stóru bandarísku fyrirtækin, sem framleiða megnið af púðunum, hafa birt rannsóknir á þessu hlutfalli.

Það er sem sagt erfitt er að rannsaka púða sem liggja inni í líkamanum og því er vandasamt að sannreyna að upplýsingarnar séu réttar. Minni fyrirtæki sem framleiða púða hafa ekki birt slíkar rannsóknir, og er það tilfinning margra lýtaskurðlækna að það sé meiri tilhneiging hjá ódýrari púðum að þeir rofni. Brjóstapúðar sem notaðir eru á Íslandi eru að mestu leyti frá stærri framleiðendum, eru gagnreyndir í mörg ár og því skiptir minna máli hér á landi nákvæmlega hver framleiðir þá miðað við mörg önnur lönd.

​

Markmið með að fjarlægja púða hlýtur alltaf að vera að fjarlægja eins mikið af sílikoninu úr líkamanum og hægt er. Þegar fjarlægja á brjóstapúða er best að gera svokallaða en bloc fjarlægingu. Þetta þýðir að skurðlæknirinn fer inn að bandvefshimnunni sem er utan um púðann, og skrælir svo út alla himnuna með púðann innaní, án þess að opna hana. Þetta þýðir að ekki skiptir máli hvort púðinn sé rofinn eða ekki, sílikonið kemst ekki í snertingu við vefinn í kring.

Það er hins vegar tæknilega erfitt að framkvæma þessa aðgerð og að skræla burtu bandvef sem er vaxinn inn í vefina í kring veldur nokkrum skaða í þeim vefjum, sérstaklega kringum púða sem liggja undir stóra brjóstvöðvanum.

Fjarlægja brjóstapúða
Fjarlægja brjóstapúða en bloc

Mögulegir skaðar við brottnám brjóstapúða

Það er einkum stóri brjóstvöðvinn sem mögulega ber skaða af, en einnig beinhimnan utan um rifbeinin sem liggja beint undir bandvefshimunni, næst líkamanum. Ekki er um varanlegan skaða að ræða á vefjunum, en þessi aðgerð er oft sársaukafull. Brjóstvöðvinn jafnar sig smám saman, og beinhimnan á rifbeinunum grær á fáeinum vikum.

Þegar þessi aðgerð er framkvæmd, þá er óumflýjanlegt að talsverð örmyndun verði á svæðinu þar sem púðinn var til staðar. Þetta getur mögulega haft áhrif á form brjóstsins eftir að púðinn er tekinn út. Yfirleitt er því konum ráðlagt að nudda svæðið þétt í nokkra mánuði til að minnka myndun örvefs og inndrátt á svæðinu. Þó svo allt þetta sé gert er aldrei hægt að ábyrgjast form brjóstsins verði fallegt. Þetta gildir einnig um ef brjóstalyfting eða fituísprautun sé framkvæmd samtímis.

​

Mun léttara er að fjarlægja brjóstapúða með að fara inní bandvefshimnuna og fiska út púðann. Þetta hefur þá kosti að verkir og örmyndun verða mun minni, en gallinn sá að ekki er hægt að ábyrgjast að eins miklu sílikoni sé hægt að ná burt og með en bloc aðferðinni. Það er auðveldara að gera brjóstalyftingu með góðum árangri ef þessi einfaldari aðferð er notuð. Hún dugir hins vegar oft vel, sérstaklega ef konur hafa engin einkenni frá brjóstunum, eða öðrum líffærakerfum.

​

Ákvörðunin er oft sú að í mörgum tilfellum geti verið happadrjúgast að taka púðana en bloc. Þetta þó svo um um meiri áverka fyrir líkamann sé að ræða og að um meiri örvef verði að ræða. Að ná burt sílikoninu er ofar á forgangslistanum hjá mörgum konum heldur en endanlegt útlit brjóstanna. Þetta er hins vegar matsatriði sjúklings og skurðlæknis og þarf að ræða vel.

bottom of page