top of page

Fitusog

Að fara í fitusog er eitt það algengasta sem fólk biður um þegar það kemur til lýtalæknis. Meðan fitusog getur verið kröftug og góð meðferð til að taka út vissa hluta fitunnar, er það samt sem áður háð nokkrum takmörkunum. Hinar helstu er annars vegar staðsetning fitunnar og hins vegar magn umframhúðar.

Fitusog á síðu2.png

Leiðarvísir um fitusog

Fitusog (liposuction á ensku) er aðgerð sem fjarlægir umfram fitu sem finnst milli húðar og vöðvalags á ákveðnum svæðum likamans. Þetta er ein vinsælasta fegrunaraðgerðin sem lýtalæknar framkvæma, en aðferðinni er einnig beitt í ýmsum aðgerðum innan uppbyggjandi lýtaaðgerða sem framkvæmdar eru á sjúkrahúsum og teljast þá ekki fegrunaraðgerðir. 

Hægt er að fitusjúga frá mörgum svæðum líkamans, en algengast eru kviðurinn, mjaðmir, læri, upphandleggir og haka (undir kjálkabörðum). Þetta er ekki aðgerð sem kemur í stað þyngdartaps, heldur er hægt að nota hana til að bæta hlutföll og línur ásamt því að meðhöndla takmörkuð svæði þar sem fitan vill bara ekki hverfa þrátt fyrir hollt mataræði og mikla hreyfingu.

Margar tegundir af fitusogi eru til, margar tegundir af tækjum, sem öll eiga sammerkt að vera hönnuð til að auka nákvæmni lýtalæknisins þegar fitan er numin á brott. Allir framleiðendur halda því fram að einmitt þeirra tæki sé bæði þægilegast og best.

 

En sama hvaða aðferð er notuð er ýmislegt sameiginlegt með þeim.

1.    Alltaf þarf að sprauta miklu af sérstakri saltvatnslausn sem inniheldur staðdeyfilyf og adrenalín sem dregur saman æðar. Þetta er gert til að minnka líkurnar á blæðingu eftir aðgerðina.
2.    Holnálar (kanylur), sem eru mjó rör í ýmsum grófleikum/fínleikum, er stungið inn í fitulagið og fitan er sogin gegnum þær eftir að lýtalæknirinn hefur gert nokkur 4mm göt í húðina með skurðhníf.
3.    Lofttæmi er til staðar í einhverri mynd, annað hvort frá sérstöku lofttæmistæki, eða gert með stórum sprautum.
4.    Sjúklingurinn þarf að nota einhvers konar þrýstiplagg eftir aðgerðina til að halda niðri bjúg og bólgu, yfirleitt í nokkrar vikur.

 

​

​

​

​

​

Fitusog getur hjálpað til við að fjarlægja umframfitu frá ákveðnum svæðum líkamans, sem getur bætt útlínur og hlutföll hans. Margir eiga við að stríða takmörkuð svæði á líkamanum þar sem virðist ómögulegt að losna við einhvern kepp, þó svo allt hafi verið reynt til þess. Eftir aðgerð eiga margir auðveldara með að kaupa þá tegund fata sem þeir/þær vilja og sumir finna við þetta meira sjálfstraust. 
Oft er hægt að meðhöndla fituna sem sogin er, meðhöndla hana á sérstakan hátt og sprauta henni svo aftur inn þar sem einstaklingurinn vill hafa meiri fyllingu. Algengasta dæmið eru konur sem vilja losna við vef frá kviðnum, en vilja fá aukna fyllingu í brjóstin. Þessu til viðbótar er að verða meira og meira er um að fitunni sé sprautað á aðra og viðkvæmari staði, svo sem í andlit. Þetta er hins vegar verulega umdeilt, vegna þess að fitufyllingin er varanleg og ekki hægt að losna við hana aftur, þrátt fyrir að andlitið breytist með aldrinum. Það er því þannig að eitthvað sem lítur frábærlega út árið sem þetta er gert, getur litið óaðlaðandi og einkennilegt út einhverjum árum síðar. Fitan nefnilega hagar sér eins, hvar svo sem hún er á líkamanum. Ef einhver sem til dæmis hefur fengið fitu í varirnar þyngist talsvert, þá stækka varirnar sömuleiðis. Til að minnka þær aftur þarf skurðaðgerð sem skilur eftir sig slæm ör. Auðvelt er að finna dæmi um þetta víðs vegar um internetið án mikillar leitar.

 

Góður kandidat í fitusog er:

​

Fitusog er aldrei hægt að nota til að léttast. Vandamál einstaklingsins þurfa að vera bundin við ákveðið svæði en ekki allan líkamann. Bestu kandidatarnir eru því:


1.    Fólk með réttar og raunhæfar væntingar til aðgerðarinnar.
2.    Þrjósk svæði eða keppir með fitu sem ekki gengur að ná burt með mataræði og líkamsrækt
3.    Að húðin yfir svæðinu sé af góðum gæðum, vel teygjanleg og hafi mikla eiginleika að geta dregið sig saman eftir að búið er að tæma fituna sem er undir
4.    Eðlilegur þyngdarstuðull og þyngd sem ekki hefur breyst lengi
5.    Engir alvarlegir sjúkdómar til staðar

6.    Geta til að halda sömu þyngd eða léttast aðeins í hið minnsta heilt ár

​

Nokkur atriði sem þarf að hugsa út í í sambandi við fitusog eru:

​

  • ​Númer eitt er að vera viss um að húðin, sem alltaf er teygð af einhverju marki, geti dregið sig saman eftir að búið er að taka burt hluta af innihaldinu. Það er lítið skárra að hafa "tóman poka" eftir sogið, heldur en "fullan poka" fyrir aðgerðina. Tómir pokar klemmast oft í buxnastrengjum og öðrum plöggum. Ef útlit er fyrir að húðin geti ekki dregið sig saman þarf að taka fram hníf og fjarlægja hana með þeim hætti.

  • Sú húð sem vill draga sig saman einkennist yfirleitt af því að vera þykk falla vel að undirlaginu og laus við allt slit eftir t.d. kynþroska eða barnsburð.

  • Vanur lýtaskurðlæknir á auðvelt með að dæma um hvora tegundina af húð sem sjúklingurinn hefur

  • Þó svo það sjáist ekki sérlega mikið utan á húðinni eftir fitusog, þarf að muna að sárasvæðið innan í líkamanum er stórt. Þetta veldur því að fólk sem hefur farið í gegn um slíka aðgerð er oft mjög þreytt og ekki alveg eins og nýslegnir túskildingar í fáeinar vikur á eftir.

  • Fitan á líkamanum er mismunandi með tilliti til hvar á líkamanum hún er. Sums staðar, svo sem á innanverðum hnjánum og lærunum er mjög auðvelt að frá hana út, en á öðrum, t.d. rassinum getur það verið nær ómögulegt. Þannig er ekki hægt að fitusjúga hvar sem er á líkamanum. Ef of hart er gengið fram þar sem fitan er gróf og vaxin inn í bandvef orsakar það bara örmyndun og ójöfnur í húðinni, en fyllingin er enn sú sama.

  • Einnig þarf að muna eftir að læknirinn kemst aldrei lengra en inn að vöðvalaginu, þ.e. bara það sem er hægt að "klípa" í utan frá. Margir hafa mikla fitu innan í kviðnum, sem helstu orsök þess að maginn stendur út. Enginn kemst að þeirri fitu, heldur þarf að reima á sig hlaupaskóna og borða gulrætur til að losna við hana.

  • Við fitusog myndast örvefur á alveg sama hátt og við allar aðrar aðgerðir. Örin utan á húðinni eftir litlu skurðina er erfitt að sjá þegar þú hafa þroskast, en það sem skiptir máli í þessu sambandi er örmyndunin undir húðinni. Ef of geyst er farið og of mikið tekið myndast örstrengir milli vöðvalags og húðar. Þessir örstrengir orsaka ójöfnur í húðinni. Þær geta verið litlar, og þær geta verið svo stórar að sjúklingurinn verður aldrei ánægður.

  • Því meira sem sogið er út, því meiri verður örmyndunin, og því meiri verða ójöfnurnar. Því þarf að sjá til að finna gott jafnvægi milli þess hversu mikið er tekið og þess hver áhættan er af ójöfnum. Það er oft þetta sem er vandasamast. â€‹

Kostir / möguleikar fitusogs

Svona fer fitusog fram...

Áður en aðgerðin hefst hefur læknirinn teiknað út, í samráði við sjúklinginn hvar á að sjúga og hversu mikið. Þetta er gert bæði í standandi og liggjandi stöðu svo hægt sé að fá sem besta mynd af því hvar samsöfnunin er mest.

Þegar búið er að svæfa er lögð staðdeyfing á þá staði þar sem gera á göt á húðina. Svo eru gerð mismunandi mörg ca. 4mm göt á húðina, nokkuð utan við svæðið sem á að sjúga. Eftir þetta kemur sennilegast mikilvægasti þátturinn, en þá er sprautað inn í vefinn miklu magni af sérstakri deyfilausn, sem bæði losar fitufrumurnar frá hver annari og kemur í veg fyrir blæðingar eftir aðgerðina.

Eftir þetta er valin réttur sverleiki á fitusogsholnálinni, sem er stungið inn og hún er svo hreyfð fram og aftur um það svæði sem á að meðhöndla. Yfirleitt er notaður fleiri en einn sverleiki. 

Magn fitunnar sem kemur út er mælt svo hægt sé að sjúga jafn mikið frá hægri og vinstri hlið til að fá symmetríuna sem besta.

Eftil að þessu er lokið er gengið frá litlu skurðunum með einu spori af þræði sem er svo fjarlægður eftir viku.

Léttar umbúðir eru svo settar yfir skurðina og sjúklingurinn er klæddur í þrýstiplaggið áður en hún/hann vaknar.

​

Allt er vaðandi á netinu af myndskeiðum sem sýna lýtaskurðlækna hrista fram og til baka holnálar eins og enginn sé morgundagurinn. Margir fá þá mynd af fitusogi að þetta sé auðveldasta  lýtaaðgerðin sem er gerð.

En það er ekki svo. Það getur verið snúið að fá fallega útkomu úr fitusogi og það er margt að hugsa um og varast.

​

En árangurinn þá?

 

Strax eftir aðgerðina sést lítill munur miðað við áður. Jafnvel getur svæðið virst þykkara en áður. Þetta er vegna bólgu og bjúgs í svæðinu, og hefur ekkert að gera með hversu mikið eða lítið hefur verið sogið.

Fyrsta bólgan sest að talsverðu leyti á ca. 3 vikum, og það er í fyrsta lagi þá sem hægt er að gera sér einhverja svolitla mynd af því sem hefur gerst. Það er ekki fyrr en eftir um 3 mánuði að hægt er að sá niðurstöðurnar, en endanlegar niðurstöður sjást í fyrsta lagi eftir eitt ár, þ.e. þegar allur örvefur hefur þroskast.

Árangurinn er yfirleitt til framtíðar, að því gefnu að einstaklingurinn haldi nokkurn vegin sömu þyngd. Ef liðið hafa hins vegar einhver ár þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því þó einhver kíló bætist á. Krítíski tíminn eru fyrstu 2 árin.

​
 

bottom of page