top of page

Að annast skurðina

Allir vilja hafa örin sín grönn og fín. Náttúran hins vegar vill hafa þau stór og sterk. Við getum hins vegar gert ýmislegt til að plata náttúruna og fá ör eins og við viljum hafa. Hér koma nokkur ráð sem nota má eftir aðgerð svo örin verði eins fín og hægt er.

Lýtalæknir

Leiðbeiningar eftir aðgerð - Að annast skurðina sína

 1. Aldrei er hægt að fara í neins konar aðgerð án þess að gat sé gert á húðina með einhverjum hætti. Þetta gat er svo saumað saman. Yfirleitt eru saumar settir í fleiri en eitt lag, þ.e. undir húðinni eru saumar sem leysast upp af sjálfu sér.

 2. Aðferðunum sem notaðar eru til að loka sári má gróflega skipta upp í tvennt. Annars vegar geta allir saumar verið staðsettir undir húðinni, með uppleysanlegum þráðum, of hins vegar getur verið eitt lag af saum undir húðinni og svo ”venjuleg” spor í húðina. Það eru margir þættir sem skipta máli í vali skurðlæknis á tækni.

 3. Alltaf þegar skorið hefur verið í húð myndast ör, hvernig þau verða liggur í genunum að nokkru leyti, en svo skiptir hæfni skurðlæknisins einnig miklu máli.

 4. Vel saumuð sár gróa yfirleitt á 7-10 dögum. En þá er hins vegar öll örmyndun eftir, og það er þá sem við reynum að grípa inní.

 5. Strax eftir aðgerðina ertu með tvö lög af umbúðum. Innst hefurðu mjótt og sterkt skurðlæknateip. Þau vernda skurðinn og hjálpa til við að halda honum saman til að aðstoða líkamann við gróandann. Yst hefurðu einhvers konar umbúðapúða sem tekur við þeim fáu dropum af blóði og deyfingu sem kemur út.

 6. Eftir 2-3 daga máttu taka ytri umbúðirnar af, en skildu teipið eftir.

 7. Teipið þolir vatn, svo eftir þetta skaltu fara í sturtu og þvo þér á venjulegan hátt með sjampói og fljótandi sápu. Íslenskt vatn og sápa minnkar magn baktería á líkamanum, sem verndar gegn sýkingu. Misskilningur er að það megi ekki sturta sig meðan saumarnir eru í. Það er bara sóðaskapur.

 8. Eftir sturtuna er hægt að þurrka teipið með hárþurrku.

 9. Teipið er tekið af við endurkomuna til læknis eða hjúkrunarfræðings.

 10. Eftir þetta skaltu setja á pappírsteip sem heitir Micropore og fæst í flestum apótekum. Mörgum þykir sá brúni þægilegri en sá hvíti. Breidd upp á 2,5cm er yfirleitt nægjanleg. Þetta teip þolir vatn.

 11. Leyfðu microporeteipinu að sitja á sárinu eins lengi og hann tollir, helst heila viku. Ekki skipta oft, því þá ferðu að slíta með þér ysta húðlagið sem fáum þykir gott. Teipaðu svo á þennan hátt 9 mánuði.

 12. Að teipa lengi styður sárkantana og heldur þeim saman. Þá heldur húðin að það sé nóg að gera örið lítið og nett, en ekki stórt og sterkt.

 13. Ef maður þrátt fyrir þetta fær ör sem maður er ekki ánægður með er gott að heimsækja lýtalækninn aftur og ræða hvort hægt sé að gera eitthvað til að stoppa örmyndunarferlið.

bottom of page