Brjóstaminnkun
Þó flestar konur séu, og ættu að vera, ánægðar með brjóstin sem þær bera, þá geta þau stundum verið orsök vandamála sem hafa stór áhrif á daglegt líf þeirra, vinnu og tómstundir.
Þetta á við konur sem þurfa að bera stærri brjóst en þeim þykir þægilegt. Mikilvægt er að muna að margar konur hafa stór brjóst án þess að hafa frá því nokkur vandræði. Aðrar eiga erfitt með að framkvæma léttari hluti.
Að minnka brjóst er ein algengasta aðgerð sem lýtalæknar framkvæma. Hún er ekki flókin, en samt mjög vandasöm ef niðurstaðan á að vera góð, í hvert skipti, hjá öllum konum.
Eitt af algengustu vandamálum kvenna sem leita lýtaskurðlæknis eru stór og þung brjóst. Hjá vissum sjúklingum byrjar vandamálið þegar á kynþroskaskeiði, en þetta getur gerst að því er virðist upp gegnum alla ævi konunnar, bæði fyrir og eftir tíðahvörf.
Algengt er að konan eigi nána ættingja sem eiga við sama vandamál að stríða, sumar sem hafa farið í aðgerð vegna þessa. Ef brjóstin hafa valdið langvinnum verkjum finnur konan oftast létti um leið og hún vaknar eftir aðgerðina
Kvenlegur kirtilvefur er mismunandi mikill milli sjúklinga. Segja má að brjóst séu uppbyggð af tveimur mismunandi tegundum vefs, annars vegar kirtilvefs og hins vegar fitu. Snemma á lífsleiðinni, áður en konan verður ófrísk, er hlutfallslega mikill kirtilvefur, sem kölluð eru „þétt“ brjóst. Kirtilvefur er hlutfallslega þyngri en fituvefur. Þetta getur skýrt áhrif brjóstanna á verki kvenna á þessum aldri.
Það er hins vegar mismunandi milli kvenna hversu mikill kirtilvefurinn er í hlutfalli við fituvefinn frá fyrstu byrjun. Sennilega eru það genin sem mestu ráða þar.
Það sem við vitum líka er að þyngd kvennanna skiptir miklu máli hvað varðar þyngd brjóstanna. Því meiri sem líkamsfitan er, því líklegra er að brjóstin séu stór. Í sumum tilfellum er það svo að ef konan léttist um ákveðin kíló, þá minnka eða hverfa einkennin frá þeim. Það breytir hins vegar ekki því að konan getur verið óánægð með útlit þeirra, að þau hangi þá meira. Margar konur hafa ósk um brjóstalyftingu og/eða vissa minnkun, enda þótt verkjavandamálið sé orðið minna.
Á Landspítalanum er þess krafist að konan sé í kjörþyngd, þ.e. hafi þyngdarstuðul (BMI) undir 27 og hafi brjóstastærð þar sem hægt sé að fjarlægja hið minnsta hálft kíló af hvoru brjósti án þess að það valdi óeðlilegu útliti. Oft getur verið erfitt fyrir margar konur að uppfylla öll af þessum skilyrðum.
Þegar þessi aðgerð er framkvæmd utan sjúkrahúsa er í meginatriðum metið almennt heilsuástand sjúklingsins og metið hvort hægt sé að gera aðgerðina utan spítala með minnstu mögulegu áhættu.
Algengustu einkenni of stórra brjósta eru langvinnir verkir í hnakka og öxlum, sem jafnvel gera að sjúklingurinn getur ekki unnið þá vinnu sem hún vill, eða sinnt vissum áhugamálum. Einnig eru algeng vandamál hvað varðar svita undir brjóstum, sem í vissum tilfellum geta orsakað endurteknar sveppasýkingar, sem erfitt er að meðhöndla, fyrr en brjóstið hættir að liggja jafn þétt upp við brjóstvegginn á þann hátt sem það hefur gert. Yfirleitt er það þannig að þegar búið er að minnka brjóstið þá hverfa þessi vandamál fljótt.
Verkirnir í hnakka og öxlum hverfa yfirleitt einnig innan fárra daga, ef orsaka þeirra er ekki að leita í brjósklosi í hálsi, eða slitbreytingum í hálshrygg eða brjósthrygg sjúklingsins. Í mörgum tilfellum upplifir einstaklingurinn breytingu til batnaðar frá þeirri stundu er þær vakna eftir aðgerðina.
Mikilvægt er að muna að þrátt fyrir að brjóstunum sé lyft þannig að fellingin undir brjóstinu sé ekki lengur fyrir hendi, þá eiga brjóstin eftir að síga aftur.
Það er hins vegar afar sjaldgæft að sömu einkenni komi upp aftur hvað varðar verkina eða sýkingarnar.
Ástæðan fyrir að brjóstin síga aftur er að leita í genum konunnar, og er því ekkert sem hægt er að stjórna, hvorki hún né lýtaskurðlæknirinn. Algeng ráð, svo sem að alltaf vera í þéttum brjóstahaldara hafa næstum engin áhrif. Eini möguleikinn er að sætta sig við að svona sé maður gerður, á sama hátt og hvað varðar hára- húð- eða augnlit.
Ef konan vill undirbúa sig á besta hátt fyrir aðgerðina er best að stunda styrktarþjálfun. Oftast segjum við konunni, ef hún er frísk, að hún þurfi kannski ekki að létta sig mikið, en styrktarþjálfun styrkir vöðvana í baki og öxlum, sem hjálpa til við að ná sér fljótt eftir aðgerð. Gott þrek minnkar líka áhættuna á vandkvæðum með sáragróanda eftir aðgerðina. Ef hún á ræktarkort má því mæla með að hún noti það samvizkusamlega þann tíma sem er fyrir hendi fram að aðgerð.