top of page

Að huga að fyrir og eftir aðgerð

Undirbúningur aðgerðar

Lýtaaðgerð

Öll höfum við mikið magn af bakteríum á húð líkamans, þrátt fyrir gott almennt hreinlæti. Allir sjúklingar sem undirgangast skurðaðgerðir þurfa að sturta sig þrisvar með sérstakri bakteríudrepandi sápu (chlorhexidín sápu). Þetta er gert til að minnka magn baktería á húðinni, en mikið magn þeirra eykur sýkingartíðni.

Í öll skiptin þarf að nota þessa sérstöku sótthreinsandi sápu sem þú færð afhenta í viðtali, eða kaupir í apóteki. Ekki er nægilegt að nota venjulega fljótandi sápu.

 

Ekki má nota svitalyktareyði, krem, förðunarvörur, naglalakk, ilmefni eða skartgripi eftir sturtuna og klæðast þarf hreinum fötum. Ekki skyldi raka hár, svo sem í holhönd, yfir lífbeini eða annars staðar minnst þremur sólarhringum fyrir aðgerð. Ef raka þarf hár vegna aðgerðarinnar er það gert á skurðstofu.

Þegar hverri sturtu er lokið skaltu þurrka þér með nýþvegnu handklæði og fara í hrein nærföt.

Meðvitund

Meðvitund er það fyrsta sem við könnum eftir aðgerð. Við viljum geta rætt við þig strax eftir aðgerðina, þó svo þú munir sennilegast ekkert eftir því

Blóðþrýstingur

Fylgst hefur verið náið með blóðþrýstingi þínum gegnum alla aðgerðina og við höldum áfram að fylgjast með honum þar til þú ferð heim.

Súrefnismettun

Fylgst hefur verið með súrefnismettun þinni gegnum alla aðgerðina og við höldum áfram að fylgjast með henni, meðan þú jafnar þig á vöknun. Við gefum þér súrefni ef þarf.

Hjartsláttur

Við fylgjumst vel með púls þínum og breytingum á honum.

Verkir

Við fylgjumst vel með verkjaástandi þínu og gerum það sem við getum til að halda þeim í lágmarki. Þó er rétt að taka fram að enginn er alveg verkjalaus eftir aðgerð.

Ógleði

Þeir sem gangast undir aðgerð fá "kokteil" af ógleðilyfjum undir lok svæfingarinnar til að minnka líkur á ógleði. Ef þarf, gefum við meira af þessum lyfjum á vöknun.

Þvaglát

Eftir aðgerð getur borið þá þvagtregðu. Orsökin er yfirleitt svæfingarlyfin og þetta er algengast hjá þroskuðum karlmönnum. Ef ekki gengur að pissa eða lítið kemur af þvagi þarf að láta vita, svo hægt sé að leysa málið.

Dren

Ef þú hefur fengið dren könnum við reglulega og skráum hversu mikið hefur komið í þau, og að um eðlilegt magn sé að ræða.

Skurðsvæði

Við könnum skurðsvæðið reglubundið með tilliti til blæðingar eða annars þar til þú ferð heim.

Bráðir fylgikvillar

Við metum þig reglulega með tilliti til bráðra fylgikvilla, svo sem bráðrar blæðingar eftir aðgerð

Skurðsár

Skurðsári er yfirleitt lokað í þremur lögum, sem öll eru undir húðinni. Um sterka þræði er að ræða, og því afskaplega óvenjulegt að sár springi upp vegna þess að saumarnir halda ekki.

Í vissum tegundum aðgerða, svo sem svuntuaðgerðum eru nær alltaf lagðar grannar drenslöngur (kerar) svo hægt sé að leiða út sárvökva frá aðgerðarsvæði. Þessar eru fjarlægðar morguninn eftir aðgerð. Gengið er frá yfirborði sársins með pappírsteipi, sem á að vera á sínum stað þar til þú kemur til fyrsta eftirlits. Eðlilegt er að svæðið  kringum skurðsár sé dofið fyrst eftir aðgerðina og getur dofinn varað í nokkurn tíma. Í einstaka tilfelli er dofinn varanlegur, t.d. í geirvörtu eftir brjóstalyftingu eða brjóstaminnkun, en sjaldgæft er að sjúklingur geti ekki lifað með dofanum, án þess að hann valdi vandkvæðum í daglegu lífi.

bottom of page