top of page
Húðkrabbamein

Grunnfrumukrabbamein

Grunnfrumukrabbamein er algengasta illkynja æxlið í húð. Það er hins vegar sú tegund sem er minnst hættuleg af öllum húðæxlum, það myndar aldrei meinvörp, hvorki í eitlum eða annars staðar í líkamanum

Grunnfrumukrabbamein (basalioma) er algengasta illkynja húðæxlið og kemur gjarnan þar sem húðin hefur verið útsett fyrir sól t.d. í andlit, á eyru, varir og nef. Líkt og með önnur krabbamein er ástæðan hins vegar oft óþekkt. Ef meinin eru lítil og eru annarstaðar en í andliti, er stundum hægt að meðhöndla þau á annan hátt en með skurðaðgerð. Þannig er ástundum notast við geislameðferð, frystingu eða jafnvel að skafa þau burt.

Meirihluti grunnfrumukrabbameina kemur upp hjá einstaklingum eldri en 50 ára. Tíðnin hefur trúlega tífaldast á síðustu 30 árum. Sólböð með hléum á milli, en einnig að vera langvarandi útsett(ur) fyrir sólarljósi eru mikilvægustu áhættuþættir grunnfrumukrabbameina. Rauðbirknir einstaklingar og fólk með ljósa húð og hár eru í mestri hættu á að fá þessa tegund æxlis. Það er yfirleitt hægvaxandi en er samt eyðileggjandi staðbundið illkynja æxli í húðinni. Það birtist sem vaxandi hnútóttur blettur, eða grunn sár sem geta gróið tímabundið, en birtast svo aftur og geta þá blætt nokkuð.

Þegar einstaklingur hefur fengið eitt æxli ef þessari tegund er hættan á að fá eitt eða fleiri ný æxli af sömu tegund í framtíðinni stór. Rannsóknir hafa sýnt jafnvel 33% áhættu á slíku innan tvegggja ára.

Hægt er að meðhöndla æxlin með ýmsum hætti. Þau sem eru minnst ágeng er sem sagt oft hægt að frysta eða skafa burt, en þau sem eru mest ágeng (aggressíf) þarf yfirleitt að skera burt.

Ferlið fer yfirleitt þannig fram að það er húðlæknir eða heilsugæslulæknir sem setur greininguna eftir skoðun sína, en svo kemur það í hlut lýtalæknis að fjarlægja þau sem þarf að skera. Þetta gildir sérstaklega um þau sem eru í andlitinu. Þar getur verið þörf á enduruppyggjandi aðgerð, með að flytja húð eða annan vef til að loka sárinu á eins góðan hátt og hægt er.

Grunnfrumukrabbamein vex oft með „sprotum,“ eða „rótum.“ Þessar rætur vaxa bæði inn í vefinn á dýpinu eða til hliðar við æxlið og sjást ekki með beru auga. Þær sjást hins vegar í smásjárskoðun meinafræðings. Það gerist því stundum að sjúklingurinn þurfi að koma til baka þar sem fjarlægja þarf meira.

Grunnfrumukrabbamein eru æxli sem eru staðbundin, þ.e. dreifa sér ekki, en þau eyðileggja þann vef sem þau vaxa í.

bottom of page