top of page
Svuntuaðgerð

Sértækir fylgikvillar eftir svuntuaðgerð

Að gera svuntuaðgerð, sé ekki talað um svuntuaðgerð með fitusogi veldur stóru svæði á líkamanum þar sem sár hefur verið gert. Auðvelt er að sjá sárið sem sjálf svuntan hefur gert, en muna þarf að fitusogið gerir líka sár, þó svo það sjáist ekki auðveldlega utan frá. Við erum því að tala um mjög stórt svæði, stundum næstum alla leið í kring um bolinn, þar sem búið er að fjarlægja eins mikið af vef og hægt er.

Að þessu sögðu má skipta fylgikvillum eftir svuntuaðgerð með eða án fitusogi í tvennt:

Annars vegar er um að ræða þessa almennu fylgikvilla sem geta fylgt hvaða skurðaðgerð sem er. Þá erum við að tala um blæðingu og sýkingu. Þeir fylgikvillar haga sér alveg eins hér og alls staðar annars staðar.

Það sem hins vegar getur gert svuntuaðgerðir, eða svuntuaðgerð með fitusogi sérstakt er þegarkemur drep í efri sárkantinn á kviðnum. Til þess að sár geti gróið verður að vera blóðflæði í sárkantana. Því betra flæði, því auðveldara er fyrir líkamann að láta sárin gróa. Það er hins vegar svo að við að gera svuntuaðgerðina þá er brennt fyrir megnið af æðunum sem flytja blóð til efri sárkantsins, svo að hann er háður blóðflæði sem kemur frá því svæði á kviðnum sem er undir rifjaboganum. Enn minna blóðflæði er til staðar ef fitusog hefur verið framkvæmt ofan við naflann, á kviðnum þar.

Þetta gerir því að erfiðsti fylgikvillinn eftir svuntuaðgerð er drep í efri sárkantinum. Þetta er algengst hjá sjúklingum sem reykja.

Drepið getur verið talsvert mikið, svo að erfitt er fyrir lýtalækninn að sauma sárið saman, þegar allt drep hefur verið fjarlægt. Því þarf stundum að bíða með sárin opin í fáeinar vikur áður en hægt er að gera þetta, ellegar að setja á svokallaða sárasugu (VAC) sem hjálpar til við að halda sárköntunum saman. Þetta er alla vega mjög leiðinlegur fylgikvilli, sem veldur sjúklingnum miklum ama. Ferlið er langt þar til allt er gróið.

Ef mikið er um vef í hliðunum á kviðnum (flankarnir) er það að sjálfsögðu sogið burt. Hins vegar má gera ráð fyrir því þegar allt er saumað saman að það verði eftir svokölluð „hundseyru“ sin hvoru megin við skurðinn framaná. Til að koma í veg fyrir þetta þarf að gera örið miklu lengra en annars. Hundseyrun eru svo leiðrétt þegar nokkrir mánuðir hafa liðið, þá eru þau farin, en lengdin á örinu hefur eingöngu aukist lítið.

 

Oft er sagt að í lýtalækningum þarf maður annað hvort að velja styttri ör, og verra form líkamshlutans sem aðgerðin er gerð á, ellegar lengri ör og betra form. Þá er betra að hafa örin lengri og formið betra. Það þarf bara að passa að leggja örin þannig að auðvelt sé að klæða þau af sér, t.d. að leggja örin verulega langt niðri við svuntuaðgerð. Jafnvel svo að helmingurinn af hárberandi svæðinu (músin) er fjarlægt. 

Stundum er þó ómögulegt að gera þetta, svo sem þegar aukahúð á upphandleggjum er fjarlægð, þó svo sjúklingum þyki það lágt verð í samanburði við að losna við alla aukahúðina.

bottom of page