Til eru nokkuð góðar rannsóknir sem sýna fram á að hrufótt yfirborð sé betra hvað varðar himnuhersli (e. capsular contraction), og þess vegna hefur slíkt yfirborð verið ráðandi, þar til á allra síðustu árum.
Það sem hefur breyst er að nokkuð nýlega hefur verið uppgötvuð mjög sjaldgæf tegund eitilkrabbameins sem hefur samband við hrufótt yfirborð brjóstapúða, sérstaklega frá einum framleiðanda. Þetta krabbamein er kallað ALCL (Anaplastic Large Cell Lymphoma), og virðist geta hent um 1 : 50,000 konum sem hafa brjóstapúða. Á Íslandi er ekki þekkt neitt tilfelli þessa sjúkdóms . Í Svíþjóð eru þekkt um 10 tilfelli. Tvær af þessum konum hafa látist, en þær fengu greininguna mjög seint, áður en tengslin við brjóstapúða voru uppgötvuð. Gera má ráð fyrir að slíkur sjúkdómur greinist á Íslandi, fyrr eða síðar, en líklegast líða mörg ár á milli.
Vegna þessa krabbameins er nú aftur farið að nota púða sem hafa slétt yfirborð. Hvort það hafi áhrif á uppkomu þessa krabbameins til langs tíma er enn óvíst.
Þar sem alltaf eru að koma fram nýjar upplýsingar um öryggi brjóstapúða er mikilvægt að sjúklingurinn fái nákvæmar lýsingar á kostum og göllum. Fyrir skömmu birti Andri ritrýnda vísindagrein ásamt meðhöfundum um tengsl brjóstapúða við sjálfsónæmissjúkdóma. Þessa grein má nálgast á síðum Læknablaðsins.
Einnig eru fleiri og fleiri að verða meðvitaðri um svokallað Breast Implant Illness (BII) þar sem einkennin geta verið margvísleg og mismunandi meðal sjúklinga. Enn er þekking á þessum sjúkdómi fremur lítil, en öruggt er að margar konur þjást vegna hans. Vegna þess hve þekkingin er lítil og greiningin erfið er ekki enn hægt að segja um áhættuna að fá hann.
Það er ljóst að margar vísindarannsóknir þurfa að fara fram á þessum erfiða sjúkdóm til að reyna finna greiningartækni og bót.