top of page
Fitusog

Breytingar á formi líkamans

Svuntuaðgerð og fitusog

Að minnka fitu, að minnka húð, að minnka bæði

Þar sem svuntuaðgerðum og fitusogi er oftast beitt saman í blöndu af einhverju tagi er gott að taka þessar aðgerðir fyrir samtímis.

Fitan á kviðnum liggur á tveimur meginstöðum. Annars er um að ræða fitu sem er inni í kviðnum, þ.e. innan við kviðvöðvana, í kringum þarma og líffæri kviðarins. Hins vegar er um að ræða fitu sem er utan við kviðvöðvavegginn, þ.e. milli húðar og vöðvalagsins. Sú fita sem hægt er að komast að með tólum og tækjum lýtaskurðlæknis er einungis sú sem liggur utan við kviðvegginn. Það er ekki hægt að minnka hina með því að fara inn í kviðarholið.

Sumir sjúklingar, oft karlmenn, hafa þunnt lag af fitu milli húðar og kviðveggs, framan við vöðvalag. Þeirra útstæði kviður er vegna fitusöfnunar innan í kviðnum (stundum af öðrum kallað bjórvömb), sem ekki hægt að laga með skurðaðgerð. Þessir einstaklingar þurfa því að reima á sig íþróttaskóna og ganga á fjöll. Aðrir einstaklingar, og þá er oft um að ræða konur, hafa bæði talsverða umframfitu og umframhúð framan á kviðnum. Þetta er fitan og húðin sem hægt er að klípa í, sem er laus utan á kviðveggnum. Nokkuð auðvelt er að komast að þessum vef sjúga og skera hann burt og á þann hátt fá kviðvegginn sléttari en hann var áður.

Fita innan og utan

Fitunni sem fyrirfinnst utan við kviðvegg, þeirri sem við komumst að, er einnig skipt í tvö lög, dýpra lagið og grynnra lagið.  Á milli þessara liggur bandvefshimna (fascia scarpa), sem þó er nokkuð auðvelt að komast í gegnum með fitusogsnálum.

Mjög mismunandi er milli sjúklinga hvort ytra eða innra lagið er þykkara. Hvernig fitan dreifir sér liggur í genum sjúklingsins að mestu leyti. Ekki er hægt að sjá þetta að utan, án þess að leggja djúpan skurð, svo að það reynir á reynslu lýtaskurðlæknisins á skurðarborðinu að meta hvað sé rétt að gera, hversu hart má ganga fram með fitusogstækninni.

Þegar sjúklingurinn kemur til fyrsta viðtals hjá lýtaskurðlækni er hið fyrsta sem gert er í líkamsskoðuninni að meta hversu þykk og teygjanleg húðin er. Þegar hún er vel teygjanleg má gera ráð fyrir að hún dragi sig saman yfir svæðið sem er meðhöndlað með fitusogi og þá verður útkoman yfirleitt góð. Aðrar konur hafa fremur þunna húð sem ekki teygist. Þetta eru oft sömu konurnar og fengið hafa slitmyndanir í húðina við kynþroska eða þungun. Þegar svo er, verður vart komist hjá því að skera burt umframhúðina, með þeirri örmyndun sem það innifelur. Það liggur eingöngu í genum sjúklingsins hversu mikinn hæfileika húðin hefur til að draga sig saman.

 

Besti árangurinn eftir fitusog næst yfirleitt við meðhöndlun á stöðum þar sem einstaklingum gengur erfiðlega að losna við síðustu keppina, en eru að öðru leyti vel þjálfaðir og í kjörþyngd.

Þó svo fitusog sýnist einfalt í sjónvarpi, er það ein af erfiðustu aðgerðum lýtaskurðlæknis til að fá ásættanlegt útlit eftir aðgerð. Ástæðan er sú að mjög erfitt er að finna jafnvægi milli þess sem hægt er að sjúga burt og þess að taka ekki of mikið. Ef of mikið er tekið, verður útkoman sú að húð sem eftir verður hrukkótt og indregin, og einstaklingurinn er sjaldast ánægð/ur með það.

Þegar fitusog er framkvæmt er ákveðin list að taka burt hæfilega mikið af fituvef.

Ef of mikið er tekið geta myndast inndrættir í húðina sem gera áferðina óeðlilega.

Ástæðan fyrir að indráttunum er sú að þegar fitan hefur verið fjarlægð, myndast örvefur þegar líkamminn græðir svæðið. Það sem þá gerist er að litlir örstrengir myndast milli húðar og vöðvalags sem veldur inndráttunum. Til að forðast þetta er að fjarlægja fituna að mestu úr dýpri lögunum, en skilja verður eftir fituna sem er rétt undir húðinni.

Ef of hart er gengið fram og indráttur hefur orðið í húðinni er mjög erfitt að leiðrétta ástandið. Orsökin er þessi örmyndun milli húðar og vöðvahimnu. Í ákveðnum tilfellum er þetta samt mögulegt, en þá verður að sprauta fitu sjúklingsins í svæðið sem er undir, annars myndast bara örvefurinn aftur og getur gert svo að ástandið versni miðað við ástandið áður.

Svuntuaðgerð
AI_Image_20231014_086684_2_edited.jpg

Algengt er sem sagt að ekki dugi bara að fitusjúga á kviðnum, heldur þarf einnig að taka burt umframhúð. Það er gert með svokallaðri „svuntu“aðgerð.

Svuntuaðgerð er nokkuð neikvætt orð, enda er sjaldgæft að sjúklingar sem undirgangast hana hafi það mikla húð að hægt sé að tala um það sem svuntu. Á Íslandi flokkast þessi aðgerð sem fegrunaraðgerð, nema í allra verstu tilfellunum, þar sem sjúklingurinn getur ekki þrifið sig. Í þeim tilfellum er húðsigið það mikið að sjúklingur getur ekki haldið fellingunni hreinni, fær tíðar sveppasýkingar reglulega og á erfitt með að fara t.d. á klósettið án þess að vefurinn nái alla leiðina ofan í vatnið.

Þegar slík aðgerð er gerð, þarf yfirleitt einnig að gera enduruppbyggingu á kviðveggnum, leiðrétta arf bil milli kviðvöðva og oft gera að kviðsliti í miðlínunni. Þessar stærstu aðgerðir eru eingöngu framkvæmdar á háskólasjúkrahúsi, enda er stundum þörf á gjörgæslumeðferð eftir á.

Flestar svuntuaðgerðir eru hins vegar gerðar á fólki sem hafa mun minni siginn vef sem þá samanstendur af húð og fitu. Oft er um að ræða sjúklinga sem hafa lést mikið, annað hvort á eigin vegum, eða hafa farið í efnaskiptaaðgerð; magahjáveitu eða ermi. Það sem lýtaskurðlæknir metur í fyrsta viðtali er uppbygging og styrkur kviðveggjarins.

Afar algengt er að þegar inn að vöðvalaginu er komið ("6-packsins") sjáist stórt bil á milli kviðvöðvanna. Þetta er algengst hjá konum sem gengið hafa með börn, en getur líka verið til staðar hjá karlmönnum sem hafa lést mikið. Grundvallaratriði er að ef markmiðið er að ná sléttum kvið er að draga saman þetta bil. Það er gert með sterkum saumum sem leysast upp að sjálfu sér á löngum tíma. Mikilvægt er að lýtaskurðlæknirinn setji þessa sauma á þann hátt að bæði sé hægt að draga saman kviðvegginn lágrétt, en einnig lóðrétt.

Þegar þetta er gert, veldur þetta nokkuð auknum sársauka í fáeina daga, en þá verður útlitið til lengri tíma betra.

Muna þarf hins vegar að aldrei er hægt að fá útlitið þannig að það líti út fyrir að sjúklingurinn hafi aldrei verið of þungu/ur.  

 

Eitt af mikilvægustu markmiðum við aðgerðina er að leggja örin þannig að þau sjáist eins lítið og hægt er, þ.e. eins neðarlega og hægt er. Í flestum tilfellum gengur þetta vel, svo sjúklingurinn getur borið næstum hvaða eðlilega nærfataplagg sem er, sem þá í öllum tilfellum hylur örið sem ómögulegt er að forðast.

Eilítið meiri líkur eru á fylgikvillum hvað varðar gróanda ef þetta er gert, en það er afar, afar mikilvægt að reykja ekki eftir aðgerð, svo allt geti gróið.

bottom of page